Miðbær Selfoss

Miðbær Selfoss

Ár
2021
Staðsetning
Selfoss, Ísland
Staða
Í vinnslu
design image
Skipulag byggðar og útfærsla þess, er í raun leikur að kubbum. Þeim er raðað upp á sem haganlegastan máta fyrir mannlífið sem þarna á að lifa og dafna. Starfsemin þarf að blómstra, íbúðir þurfa birtu og ytra umhverfi á okkar svala landi þarf sól og skjól. Fólki þarf einfaldlega að líða vel. Kubbavalið er því mjög mikilvægur þáttur í að skipulagið heppnist, en auðvitað ekki síður að þeim sé raðað þannig upp að sem bestur árangur náist að settum markmiðum.

Það er fátt nýtt undir sólinni. Mjög margir arkitektar og skipulagsfræðingar leita í tímaritum eða mest í seinni tíð á netinu af kubbum úr samtímanum eða síðustu árutugum til að móta sitt skipulag. Oftar en ekki eru þetta kubbar úr einhverjum alheimsarkitektúr sem segja ekki sögu staðarandans heldur geta verið hvaðan sem er úr heiminum. Fundinn er „flottasti“ arkitektúrinn og honum skal komið fyrir í nýju skipulagi – það getur ekki klikkað. Við þekkjum þó í skipulagssögu okkar að nýir miðbæjarkjarnar eru ekki alltaf þessi frábæra niðurstaða sem vonast var eftir.

Í nánu samstarfi við Sigtún þróunarfélag Miðbær Selfoss vildum við hjá Batteríinu prófa aðra samsetningu. Ef kubbarnir hafa dýpri merkingu, hafa jafnvel sögu og útlit sem samofin er íslenskum staðaranda, töldum við góðan möguleika á að hitta nær markinu.

Í tilfelli miðbæjar Selfoss fórum við þá leið að kubbaboxið okkar var fyllt með gömlum íslenskum húsum héðan og þaðan af landinu, en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa annað hvort brunnið eða vikið fyrir nýju skipulagi og byggð. Engir tveir kubbar eru því eins og fjölbreytileikinn er settur á oddinn. Langflest húsin eru teiknuð upp eftir ljósmyndum og þarf því stundum að geta í eyðurnar. Víða vildum við tengja saman hús með tengibyggingum eða t.d. uppfylla aðgengismál, svo þar leynast kubbar úr samtímanum. Meðvitað er þetta gert svo gömlu húsin verði læsilegri. Engu að síður er meginstefið gamlar bækur í nýju prenti.

Nú hefur fyrsti áfangi miðbæjarins verið tekinn í notkun og fátt sem bendir til annars en að markmiðum um lifandi miðbæ verði náð. Við þökkum öllum samstarfsaðilum innilega fyrir skemmtilegt en krefjandi samstarf. Við horfum glaðbeitt ofan í kubbaboxið okkar fyrir síðari áfanga.

Önnur Verk